Heilsueflandi fræðsla fyrir fólk og fyrirtæki

Fréttablaðið, 12. janúar 2022: Náttúrunámskeið við streitu, náttúruleg slökunarrými á vinnustöðum og hlýlegt lærdómsumhverfi eru meðal þess sem fræðslufyrirtækið Saga – Story House býður upp á, auk fjölbreyttra námskeiða og fyrirlestra.

Guðbjörg Björnsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir eru eigendur fræðslufyrirtækisins Saga – Story House. „Við sérhæfum okkur í aðferðum sem bæta líðan og lífsgæði fólks í daglegu lífi og á vinnustöðum,“ segir Ingibjörg. „Eitt af viðfangsefnum okkar er að bjóða upp á leiðir sem sporna gegn hinni miklu heilsuvá sem neikvæð streita er orðin í vestrænum heimi. Þar fáum við náttúruna í lið með okkur.“

Þriggja ára og vaxandi

Saga varð þriggja ára núna um áramótin. „En saga okkar sjálfra er að sjálfsögðu mun lengri. Báðar höfum við víðtæka reynslu af stjórnun, endurhæfingu og þjálfun einstaklinga og starfsmannahópa,“ segir Guðbjörg. „Ingibjörg hefur áralanga stjórnunarreynslu, meðal annars sem sveitarstjóri, hafnarstjóri og framkvæmdastjóri hjúkrunarheimilis og unglingaathvarfs, á meðan ég hef áratuga reynslu af að starfa sem iðjuþjálfi við endurhæfingu, bæði hér heima og erlendis,“ bætir hún við en Guðbjörg er menntuð sem iðjuþjálfi frá háskóla í Danmörku.

„Við höfum báðar starfað sjálfstætt við ráðgjöf og fræðslu í gegnum tíðina, bæði í eigin fyrirtækjum en einnig samhliða öðrum störfum og sá vettvangur togar alltaf í okkur,“ bætir Ingibjörg við, en hún lauk MBA-námi í HR og CEIBS, China Europe International Business School í Sjanghæ, og er með BA-próf í uppeldis- og menntunarfræðum.

Áhugaverð námskeið

„Við höfum alla tíð unnið með fólki og þar liggur okkar sérþekking. Við sérsníðum starfsdaga að þörfum ólíkra hópa hvað varðar áherslur, tímalengd og staðsetningu í samráði við stjórnendur,“ segir Ingibjörg. „Svo bjóðum við einnig upp á lengri og styttri námskeið eða vinnustofur eins og Samskipti og liðsheild, Vinnuvistfræði og áhrif umhverfis á líðan, Núvitund og næringu í starfi og Styrkleika og starfsorku.

Fólk fyrir fólk er námskeið í samvinnu við Þekkingarmiðlun og ætlað fólki sem vinnur við að þjónusta fólk í ólíkum geirum. Lífsgæði í leikskólastarfi er fræðslupakki fyrir starfsfólk leikskóla og Veistu hvað þú vilt? er námskeið fyrir fólk sem er á tímamótum. Við erum að auka við námskeiðin og bjóðum líka upp á fyrirlestra um þessi og fleiri viðfangsefni,“ bætir Ingibjörg við.

Námskeiðið byggir á gagnreyndri nálgun þar sem hver tími samanstendur af fræðslu, kyrrðargöngu og djúpslökun.

Slökunarrými á vinnustöðum

„Það nýjasta sem við erum að bjóða upp á núna er aðstoð við að útfæra og setja upp náttúruleg, falleg slökunarrými á vinnustöðum. Þar leggjum við áherslu á áhrif umhverfis á líðan út frá iðjuþjálfafræðunum,“ segir Guðbjörg. „Við höfum sérstakan áhuga á hvernig unnt er að hlúa að starfsfólki á vinnustöðum, hvernig fólk getur náð sér í orku og endurheimt jafnóðum í gegnum daginn til að auka starfsánægju og starfsorku,“ segir hún.

Náttúrunámskeið við streitu

Staldra við – Náttúrunámskeið við streitu er svo áhugavert námskeið sem byggir á áhrifum náttúrunnar á líðan. „Það má segja að í námskeiðinu sameinist þekking okkar Ingibjargar sem og reynsla og ástríða okkar fyrir að vinna með fólki úti í náttúrunni. Námskeiðið er bæði grunn- og framhaldsnámskeið auk þess sem við bjóðum upp á það fyrir enskumælandi þátttakendur,“ segir Guðbjörg. „Námskeiðið byggir á gagnreyndri nálgun þar sem hver tími samanstendur af fræðslu, kyrrðargöngu og djúpslökun og gaman að segja frá því að við höfum farið í yfir 380 kyrrðargöngur með hópa út í náttúruna síðan við stofnuðum Sögu,“ segir hún.

„Árið 2020 var gerð rannsókn á námskeiðinu á vegum félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands,“ bætir Ingibjörg við. „Niðurstöður sýndu jákvæð áhrif á líðan þátttakenda. Þetta er fyrsta rannsóknin sem vitað er til að gerð hafi verið á Íslandi á áhrifum þess að nota náttúrunálgun í hópavinnu með fólki sem er að takast á við streitu. Námskeiðið hentar líka öllum þeim sem vilja fyrirbyggja að streita þróist í neikvæða átt eða vilja læra nýjar gönguleiðir og nýjar gönguaðferðir. Náttúran er besti kennarinn.“

Facebook

Aðrar sögur

Jól í jóla-óróa

Jólablað Hafnarfjarðar: Í annríki dagsins og sérstaklega á aðventunni er öllum mikilvægt að kunna leiðir

Ó­stöðvandi náttúru­börn

Viðtal Bjarkar Eiðsdóttur birtist í Fréttablaðinu 21. febrúar 2020, sjá hér: Ó­stöðvandi náttúru­börn (frettabladid.is). Ljósmyndari: Sigtryggur