Ó­stöðvandi náttúru­börn

Viðtal Bjarkar Eiðsdóttur birtist í Fréttablaðinu 21. febrúar 2020, sjá hér: Ó­stöðvandi náttúru­börn (frettabladid.is). Ljósmyndari: Sigtryggur Ari Jóhannsson.

Fegurð skiptir máli

Það var brennandi áhugi á fólki sem leiddi þær Guðbjörgu Björnsdóttur og Ingibjörgu Valgeirsdóttur saman þegar þær unnu í öldrunarþjónustu en í dag vinna þær að því að efla tengsl fólk við sjálft sig og náttúruna.

,,Við höfum báðar brennandi áhuga á fólki og höfum alla tíð unnið að því að efla einstaklinga og samfélög, bæði hér heima og erlendis“ segir Guðbjörg en hún stendur að fyrirtækinu Saga Story House ásamt Ingibjörgu Valgeirsdóttur. ,,Ég bjó lengi, lærði, lifði og starfaði í Danmörku,“ segir Guðbjörg sem er lærður iðjuþjálfi.Ingibjörg er með bakgrunn í uppeldis- og menntunarfræði auk MBA og jafnframt hafa þær báðar lokið yogakennaranámi.

Forréttindi að vinna með eldra fólki

Það var svo í öldrunarþjónustu Garðabæjar sem leiðir þeirra lágu saman fyrir nokkrum árum. „Eldra fólk nærir kjarna okkar,“ segir Ingibjörg. ,,Það eru forréttindi að kynnast fólki sem stækkar sjóndeildarhring okkar og deilir með okkur visku sem einungis er fengin með því að hafa lifað“.

,,Þar fengum við að upplifa sögur sem hjálpa okkur að skilja“ bætir Guðbjörg við. ,,Gömlu konuna sem fór daglega út í garð og strauk klöppinni. Hversu djúpstæð náttúrutengingin er og hvað skynjun skiptir miklu máli, ekki síst þegar þú ert að takast á við færnitap og flókna sjúkdóma. Hversu mikið er fengið fyrir fólk sem býr á hjúkrunarheimilum og sjúkrastofnunum að komast út undir bert loft, finna fyrir rigningunni í andlitinu, kraftinum í rokinu, snerta snjóinn og finna lyktina af nýslegnu grasi. Hvernig glamrið í pottunum í eldhúsinu, sem hefur verið hluti af lífi þínu alla tíð, getur haft róandi áhrif og hvernig lyktin af sjóðandi hangikjöti kveikir á gamalkunnri jólatilfinningu þrátt fyrir að þú munir ekki hvaða dagur er. Skynjun og skynúrvinnsla hefur sterk áhrif á líðan og lífsgæði í daglegu lífi. Áhrif umhverfis á líðan er hluti af ástríðum okkar. Fegurð skiptir máli.“

Fyllti Yarisinn af rekavið

,,Við veltum fyrir okkur hvers við myndum sakna ef sjálfar byggjum á hjúkrunarheimili. Ég er alin upp við sjóinn í Trékyllisvík þar sem rekaviðurinn skreytir fjöruborðið. Mér fannst vond tilhugsun ef ég fengi aldrei aftur að sjá rekavið, snerta yfirborð hans og finna lyktina. Næst þegar ég fór heim til mömmu og pabba fyllti ég skottið á Yarisnum mínum af rekavið sem við settum í garðinn fyrir utan hjúkrunarheimilið og inn á skrifstofu. Fjöldi fólks á tengingu við hafið og það sem nærir þig sem manneskju munu einhverjir aðrir mjög líklega þekkja í sjálfum sér“.  

Styrmir Kári og Heiðdís Photography


Sögðu upp störfum sínum

Þegar þær Guðbjörg og Ingibjörg heyrðu af stofnun Lífsgæðaseturs á St.Jósefsspítala í Hafnarfirði sóttu þær um aðstöðu þar og mánuði síðar höfðu þær sagt upp störfum sínum. „Þetta var tækifæri sem við gátum ekki látið framhjá okkur fara. Hugmyndin og fagurt hús Guðjóns Samúelssonar heilluðu okkur“ segir Ingibjörg og heldur áfram: ,,Lífsgæðasetur St.Jó opnaði svo formlega í september 2019 og þar erum við með vinnustofu Sögu – Story House.“

,,Saga – Story House er farvegur fyrir allar okkar ástríður, reynslu og þekkingu. Farvegur til að lifa hugmyndafræði okkar, skapa og hanga – sem við teljum stórlega vanmetið. Það er mikilvægt að gefa ástríðum sínum rými. Leiðarljós Sögu er að efla tengsl einstaklinga við sjálfa sig, samferðafólkið og náttúruna“ segir Guðbjörg. ,,Við erum að byggja upp konsept með áherslu á fólk og sögur, fræðslu fyrir fyrirtæki og einstaklinga, ráðgjöf, heilsueflandi ferðir, galdra og gjörninga og lífsgæðavörur. Í upphafi höfum við lagt mesta áherslu á fræðsluhlutann og bjóðum upp á fjölbreytt námskeið.“

Kólnandi villihjörtu

Báðar segjast þær hafa upplifað á eigin skinni hversu sterk áhrif streita getur haft. „Streita er í eðli sínu jákvætt hreyfiafl og hefur hjálpað mannkyninu að lifa af. Neikvæð, langvarandi streita er hinsvegar ekki mjög eftirsóknarverð og við höfum fundið hvernig hún getur haft vond áhrif á stoðkerfi, svefn, andlega líðan og minni“ segir Guðbjörg.

,,Við erum báðar með sterkt villihjarta og sterkar ástríður sem drífa okkur áfram. Það er sársaukafullt að finna eldinn dofna vegna of mikillar streitu,“ bætir Ingibjörg við. ,,Við höfum í gegnum tíðina nýtt okkur fjölbreyttar leiðir til að sporna gegn henni, svo sem handleiðslu, hugleiðslu, yoga, sjúkraþjálfun og sótt okkur nærandi innblástur í menningu og listir. Með því að hægja á höfum við náð að tengjast betur innsæi okkar.

Styrmir Kári og Heiðdís Photography

Í hraða hversdagsins getur áreiti umhverfisins verið svo hávært að við sem manneskjur heyrum ekki eins vel í okkar innri visku. Í kyrrðinni hægist á kerfinu og við heyrum og sjáum skýrar hvað það er sem við raunverulega þurfum,“ bætir Ingibjörg við.  ,,Náttúran hefur svo verið okkur uppáhalds heilandi vettvangur“.

Óstöðvandi náttúrubörn

,,Mér líður hvergi betur en að liggja í grasi í gamalli lopapeysu og stígvélum með ,,listilega flækt hárið“ eins og aldraður vinur minn lýsti mér einu sinni“ segir Guðbjörg og brosir. ,,Ég hef alltaf verið náttúrukrakki. Leikvöllur minn sem barn var hafið þar sem við lékum okkur á bátnum með pabba, á Laugavatni syndandi í vatninu eða að þvælast í skóginum með afa.

Náttúran hefur verið mín uppspretta, mín ró og mín næring. Foreldrar mínir ferðuðust mikið með okkur, sérstaklega um hálendið og inn í Þórsmörk, þau voru óstöðvandi náttúrubörn.“


,,Náttúran er hluti af sjálfsmynd minni. Ég er alin upp í Trékyllisvík í Árneshreppi þar sem foreldrar mínir búa“ segir Ingibjörg. ,,Stórbrotin náttúran er hluti af því hver ég er. Ég sé mig ekki aðskilda frá þessum náttúruöflum sem mótuðu mig. Við maðurinn minn ættleiddum dóttur okkar frá Kína árið 2006. Þegar ég sat með hana í fanginu í rútunni á leiðinni frá borginni hennar í Suður-Kína og sá ekki út um gluggana fyrir iðandi umferð af flutningavögnum fullum af fólki, vörum og húsdýrum og var á leiðinni með þessa litlu kínversku stúlku norður í Trékyllisvík, þá leið mér eins og ég væri að fara með hana til tunglsins. Þetta var svo ólíkur veruleiki. Nafnið hennar,Hrafnhildur Kría, er tilvísun í krummann og kríuna á hlaðinu heima. Mér fannst ég ekki geta gefið henni stærri gjöf en gjöfina sem mér var gefin þegar ég var lítil stelpa; ræturnar norður á Ströndum.“

Vökva skynfærin í náttúrunni

,,Í okkar fyrri störfum sem stjórnendur sáum við skýra þörf fyrir námskeið eins og okkar sem hentar breiðum hópi, bæði þeim sem finna fyrir streitu og álagi í daglegu lífi og vilja hægja á, og eins einstaklingum sem er dottnir út af vinnumarkaði vegna streitu eða örmögnunar og vilja öðlast endurheimt“ segir Ingibjörg.
 

„Við hönnuðum námskeið sem við hefðum sjálfar viljað vera þátttakendur á þar sem náttúran leikur lykilhlutverk,“ bætir Guðbjörg við. ,,Við erum í rauninni að fara með skynfæri okkar út í náttúruna og vökva þau, hlúa að þeim og leyfa okkar að undrast,“ segir Ingibjörg.


,,Fjölmargar rannsóknir sýna fram á heilandi áhrif náttúrunnar og samfélög vítt og breytt um heiminn eru í vaxandi mæli farin að nýta hana í heilsueflandi tilgangi, segir Guðbjörg. „Japanir eru langt á undan okkur í þessum efnum, þeir hafa haft skógarböð inn í sinni opinberu heilsustefnu frá árinu 1982. Vesturlönd eru nú farin að fylgja í kjölfarið. Rannsóknarniðurstöður hafa meðal annars sýnt fram á að náttúran styður við streitulosun, lækkun á blóðþrýstingi, styrkir ónæmiskerfið, eykur svefn og bætir almenna líðan.“

Facebook

Aðrar sögur

Jól í jóla-óróa

Jólablað Hafnarfjarðar: Í annríki dagsins og sérstaklega á aðventunni er öllum mikilvægt að kunna leiðir