Ársrit VIRK 2021. Viðtal Guðlaug Guðlaugsdóttir. Ljósmynd Lárus Karl Ingason. Vísun til náttúrunnar er ríkjandi í húsnæði Saga Story House að Flatahrauni 3 í Hafnarfirði. Nánast umvafðar blómum og náttúruafurðum sitja þær Guðbjörg Björnsdóttir og Ingibjörg Valgeirsdóttir saman í sófa í horni yst í stórum sal. Ekki fer á milli mála að þær eru samhentar í stjórn og rekstri fyrirtækis síns – beinlínis er hægt að skynja samhygð þeirra þegar blaðamaður nálgast til þess að fræðast um námskeið á vegum Sögu Story House, úrræði sem þjónustuþegar VIRK nota í töluverðum mæli. Sem og eru forvitnilegar nýlegar niðurstöður úr rannsókn Félagsráðgjafardeildar Háskóla Íslands varðandi áhrif náttúrunnar á streitu með þátttöku þjónustuþega VIRK.
„Við eigum náttúrustefnuna sameiginlega – þar liggur okkar ástríða og metnaður,“ segja þær stöllur Ingibjörg og Guðbjörg. Þær búa yfir fjölbreyttri menntun og reynslu. Ingibjörg er uppeldis- og enntunarfræðingur og hefur lokið MBA-námi sem og er hún jógakennari.
Ég dvaldi um tíma í Kína í tengslum við MBA-nám mitt. Ég á ættleidda dóttur frá Kína og við fjölskyldan vildum kynnast menningu, samfélagi og sögu þar,“ segir Ingibjörg. Fyrir áttu hún og maður hennar einn son. Guðbjörg og hennar maður eiga þrjá syni. Þær geta þess að vel hafi tekist til við að flétta saman starf og einkalíf.
Guðbjörg er iðjuþjálfi og lærði sitt fag í Álaborg í Danmörku. „Á þeim tíma var ekki byrjað að kenna iðjuþjálfun á Íslandi. Að námi loknu starfaði ég sem iðjuþjálfi í Álaborg og í Kaupmannahöfn. Iðjuþjálfun hjálpar fólki meðal annars að finna styrkleika sína. Ég er líka jógakennari og hef eftir að heim til Íslands kom unnið við endurhæfingu og ráðgjöf í heilbrigðisgeiranum,“ bætir hún við.
Námskeiðin samsett úr þremur þáttum
Hvernig er háttað samstarfi ykkar við VIRK?
„Þjónustuþegar frá VIRK hafa sótt námskeiðin okkar þar sem sameinaðar eru kenningar og hugmyndafræði um betri líðan meðal annars í nánari tengslum við náttúruna. Við töldum að námskeið okkar gæti nýst fólki sem er að upplifa álag og streitu til þess að efla lífsgæði þess. Þannig gæti það ígrundað eigið líf og tilfinningar og fengið verkfæri til þess að vinna með.
Upphaf hvers þriggja klukkustunda námsdags hefst á fræðslu og áherslu á það sem við gerum þann dag. Við ræðum praktísku atriðin og hugmyndafræðina á bak við þau. Síðan förum við út í kyrrðargöngu. Þegar við komum til baka þá er leidd djúpslökun. Þessum þremur þáttum er ætlað að hlúa að lífsgæðum og daglegu lífi þátttakenda.“