Hvar finnst þér gott að hanga?

Sumarhúsið og garðurinn: Hvar finnst þér gott að hanga?

Hvar finnst þér gott að hanga? Það er eitthvað hressandi við að fá þessa spurningu. Hún ögrar djúpstæðu dugnaðardyggðinni sem hefur bæði haldið í okkur lífinu og teymt okkur í þrot. Spurningin glottir letilega framan í sjálft óþolið fyrir letinni. Gefur okkur leyfi, frelsi til að hægja á, hanga, vera. Og kallar fram minningar um einhverja óræða, notalega og nærandi skynjun.

Já, hvar finnst mér gott að hanga? Sófinn hjá ömmu, eldhúsbekkurinn hjá pabba og mömmu, kaffivélin í vinnunni, pallurinn upp í bústað. Kaffihúsið, sundlaugin, árbakkinn. Fólk og staðir. Borgir og bæir. Rými sem gefa skynfærunum okkar rými.

Má hægja á?
Herra hugur er dugnaðarforkur. Og mjög upptekinn af því að vera upptekinn. Og svo er hann líka eldklár. Hann veit vel hversu mikil orka fer í að vera sístarfandi. Hann notar því orkusparandi aðferðir við iðju sína, kemur sér vel fyrir á þægindasvæðinu og velur sér leiðir sem hann gjörþekkir. Hver myndi ekki gera það? Hann endurnýtir gamlar misgáfulegar hugsanir í massavís og endurtekur þær í sí og æ, eins og honum sé borgað fyrir það.

Á meðan hann er að endurtaka sömu hugsanirnar getur verið áhugavert að leyfa skynfærunum okkar að fá smá athygli. Hvað er að frétta hjá þeim? Hvað eru þau að nema? Hvað nærir þau? Hvar finnst þeim gott að hanga? 

Það er eitthvað við það að hanga og hanga jafnvel með einhverjum. Tala saman, þegja saman, anda saman. Sleppa takinu á símanum og tímanum og leyfa okkur að hægja á, upplifa lífið eins og það er akkúrat núna. Í núinu stöndum við frammi fyrir óendanlegum möguleikum til undrunar, lærdóms, sköpunar, hvíldar og endurheimtar. Tækifærinu til að taka eftir fegurðinni. Fegurðinni á yfirborðinu, fegurðinni í hinu djúpstæða. Næringin er nær en okkur grunar.


Ekki setjast í sætið mitt
Hver kannast ekki við að eiga sitt sæti við eldhúsboðið? Eða að skipta um sæti á veitingastaðnum? Afþví að þér leið bara ekki rétt í þessum stól, við þetta borð eða í þessari birtu? Það getur verið áhugavert að leyfa skynfærunum að leiða þig áfram. Reika um og ráða för. Þau vita hvar þeim finnst gott að hanga.

Og svo er hægt að gefa skynfærunum rými. Í bókstaflegri merkingu. Gefa þeim rými sem þau mega hanna eftir eigin þörfum. Hvernig vilja skynfærin mín hafa heimili mitt, sumarhúsið, vinnuumhverfið? Fara með vakandi vitund í skynjunarleiðangur í gegnum hversdaginn. Hvað nærir mig? Bækur, birta, bros, blóm.

Hvað ef ég færi hægindastólinn að glugganum, tíni blóm í vasa í vinnunni, hlusta á tónlist í þvottahúsinu eða brosi til ókunnugra? Fegurðin í hinu smáa. Það er svo margt sem kostar lítið en gerir mikið ef við veitum því athygli i dagsins önn. Takk fyrir að skreyta kaffibollann minn! Þegar við finnum fyrir álagi og jafnvel streitu getur vakandi vitund verið þægileg og áreynslulítil leið til að næra okkur og stuðla að endurheimt. Leyfa skynfærunum að vökva kerfið okkar. Umhverfi hefur áhrif á líðan okkar og lífsgæði.

Blóm og geimvísindi
Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur rannsakað ólík áhrif plantna á loftgæði og gefið út lista yfir plöntutegundir sem hafa sérstaklega góð, hreinsandi áhrif. Þessar plöntur auka ekki aðeins súrefnið í andrúmloftinu heldur eyða þær einnig skaðlegum lofttegundum. Rannsóknirnar voru gerðar til að athuga hvernig mætti tryggja góð loftgæði og hreinsa andrúmsloftið í geimstöðvum NASA. Friðarliljan, bergfléttan og drekatréð eru dæmi um plöntur á þessum lista sem vert er að gefa gaum.

Fleiri rannsóknir hafa svo verið að sýna fram á aðra heilsubætandi þætti plantna og sem dæmi má nefna að grænar plöntur í vinnurýmum hafa jákvæð áhrif á einbeitingu starfsfólks og eykur framleiðni í starfi. Blóm höfða til tilfinninga og hafa áhrif á nærumhverfið, skapa hlýlegt andrúmsloft og hafa jákvæð áhrif á innivist, m.a. hljóðvist. Stóru smáatriðin. Þau skipta máli.

Greinin birtist í sumarhúsið og garðurinn

Heilandi áhrif náttúru
Fræðimenn víða um heim hafa rannsakað áhrif náttúrunnar á líðan fólks. Við erum að átta okkur betur og betur á þeim styrk sem við getum sótt í náttúru okkar. Niðurstöðurnar eru óyggjandi. Fjöldi rannsókna sýna fram á jákvæð áhrif. Náttúran stuðlar að endurheimt, hefur streitulosandi áhrif, eykur sköpunargleði okkar og bætir almenna líðan.  Læknar eru í vaxandi mæli farnir að ávísa grænum lyfseðlum í heilsueflandi tilgangi.  

Við höfum verið að hlusta á þessa gömlu visku líkamans, fræðimenn nútímans og brennandi ástríðu okkar sjálfra fyrir náttúrunni og farið með hópa fólks í kyrrðargöngur út í íslenska náttúru. Í göngunum vökvum við skynfæri okkur með ólíkum náttúruöflum og göngum með hafi, skógi, hrauni, vatni og læk. Náttúran hefur tekið okkur fagnandi. Alltaf hefur hún verið til staðar, með opinn faðminn og boðið okkur upp á hlaðborð af síbreytilegri fegurð. Það eina sem við höfum þurft að gera er að þiggja boðið. Segja ,,Já takk“. Og mæta til leiks.

Og já, það má hægja á. Hlýnun jarðar, kulnun manna? Það er stórlega vanmetið að hanga.

P.s. Hvað er þetta annars með núið, hvenær er það búið? ,,How long is now?“
Guðbjörg Björnsdóttir iðjuþjálfi,
Ingibjörg Valgeirsdóttir, uppeldis- og menntunarfræðingur, MBA
Höfundar eru eigendur og þjálfarar hjá fyrirtækinu Saga – Story House, Lífsgæðasetri St.Jó.

Facebook

Aðrar sögur

Jól í jóla-óróa

Jólablað Hafnarfjarðar: Í annríki dagsins og sérstaklega á aðventunni er öllum mikilvægt að kunna leiðir

Ó­stöðvandi náttúru­börn

Viðtal Bjarkar Eiðsdóttur birtist í Fréttablaðinu 21. febrúar 2020, sjá hér: Ó­stöðvandi náttúru­börn (frettabladid.is). Ljósmyndari: Sigtryggur