Staldra við – Náttúrunámskeið við streitu

Morgunblaðið. Blaðamaður Elínrós Lindal.

Ingibjörg Valgeirsdóttir uppeldis-og menntunarfræðingur er annar eigandi og þjálfari hjá fræðslufyrirtækinu Saga Story House en fyrirtækið rekur hún ásamt Guðbjörgu Björnsdóttur iðjuþjálfa. Báðar hafa þær lokið diplómanámi á meistarastigi í jákvæðri sálfræði sem og jógakennaranámi. „Saga Story House er rúmlega 3 ára fyrirtæki okkar Guðbjargar þar sem við bjóðum upp á heilsueflandi námskeið og fyrirlestra fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Við höfum báðar mikla reynslu af því að vinna með fólki úti í náttúrunni og þekkjum því vel áhrif náttúrunnar á líðan. Undanfarin þrjú ár höfum við farið með fólki út í náttúruna og núna erum við  byrjaðar að fara með náttúruna inn til fólks,“ segir Ingibjörg. Hvað áttu við með því? „Við erum farnar að skapa heilsueflandi rými inn á vinnustöðum fyrir starfsfólk og viðskiptavini þar sem við styðjumst við hugmyndafræði iðjuþjálfunarfræða og jákvæðrar sálfræði um heilsueflandi vinnustaði og út frá áherslum Biophilic Design,“ segir hún.

Gömul viska mætir nýjum Vísindum

Kyrrðargöngur út í náttúruna hafa verið áhrifaríka leið til að efla vellíðan. Staldra við er náttúrunámskeið við streitu þar sem farið er í kyrrðargöngur út í náttúruna. „Í þessari hugmyndafræði mætist gömul viska og ný vísindi. Rannsóknum á áhrifum náttúru á líðan fjölgar dag frá degi. Í gegnum aldirnar sjáum við hvað það að ganga hefur verið mannkyninu mikil heilsubót í víðtækri merkingu. Á göngu hefur fólk fengið andlega og líkamlega endurheimt, tengst innsæi sínu og visku, dýpkað þroska og virkjað sköpunarkraftinn. Við þekkjum orð eins og heilsubótargöngur og kyrrðargöngurnar eru í raun og veru akkúrat það. Við þekkjum vel hvað það getur verið gott að fara út í náttúruna en við gefum okkur ekki alltaf tíma til þess í hraða hversdagsins. Það getur því verið mjög styðjandi að fara á námskeið og vera í hóp til að tengjast náttúrunni og koma þessari góðu fyrirbyggjandi leið aftur inn í daglegt líf. Við veljum fallegar náttúruperlur í kringum Hafnarfjörð og erum að ganga með ólíkri náttúru. Svo sem vatni, skógi, hafi, læk og hrauni. Þetta eru rólegar, leiddar núvitundargöngur, hæglætisgöngur, þar sem við erum að leggja áherslu á að hægja á og njóta náttúrunnar og áhrifa hennar á endurheimt, hvíld, slökun og innri ró. Staldra við – Náttúrunámskeið við streitu var fyrsta námskeiðið sem við settum á markað þegar við stofnuðum Sögu. Við héldum að við værum að gera sumarnámskeið en ásókn í námskeiðið hélt áfram allt árið sem kom okkur á óvart. Fólk er tilbúið til að koma með okkur út yfir mestu vetrarmánuðina sem er oft mjög áhrifaríkt. Þetta námskeið varð því óvænt strax í boði alla mánuði, allan ársins hring. Í  hverjum tíma byrjum við á heilsueflandi fræðslu, förum svo í kyrrðargöngu út í náttúruna og komum  svo inn í djúpslökun,“ segir Ingibjörg.

Hjálpar fólki sem er undir miklu álagi!

„Einstaklingar og starfsmannahópar koma á fjölbreytt námskeið til okkar til þess að efla vellíðan og jákvæða heilsu, fá verkfæri og læra fyrirbyggjandi leiðir til að hraði, álag og streita hafi ekki neikvæð áhrif á lífsgæði þeirra. Fólk kemur líka til okkar sem er að takast á við alvarlegar afleiðingar streitu á  heilsu, til að mynda vegna áfalla, nýrra eða gamalla, ástvinamissis, heilsumissis, veikinda í fjölskyldu,  skilnaða, atvinnumissis, álags og jafnvel kulnunar í starfi.“

Erum of oft að bíða eftir beinu brautinni

Enginn fer í gegnum lífið í stöðugu logni. „Við erum kannski of oft að bíða eftir beinu brautinni, þægilega kaflanum. Höfum jafnvel sterkar væntingar um að núna sé þetta komið, að nú gangi allt vel. En lífið er eins og veðrið. Lífið er eins og náttúran og við erum hluti af henni. Hverfulleiki  náttúrunnar endurspeglast til að mynda í daglegri líðan okkar. Tilfinningar koma og fara. Allt kemur og fer. Dagurinn, nóttin, árstíðirnar. Þess vegna er náttúran svo góður kennari okkar. Hún minnir okkur á að setja hlutina í stærra samhengi, minnir okkur á að við erum hluti af þessari risastóru heild.“

Ljósmynd: Hákon Pálsson



Af hverju ætli við lærum alltaf mest á sögum?

„Sögur eru hluti af arfleifð okkar, hluti af sögu okkar. Þær snerta við okkur tilfinningalega, auðvelda okkur að setja okkur í spor annarra og tengja við eigin reynslu. Þær geta því sest í tilfinningalegt minni okkar og dýpkað skilning, vitund, lærdóm og þroska. Það eru svo mikil tækifæri fólgin í að læraaf eigin reynslu og annarra. Sagnahefðin er rík í okkar menningu og á námskeiðum okkar notum við töluvert það sem við köllum sögur sem hjálpa okkur að skilja. Á námskeiðum okkar erum við að skapa farveg fyrir lærdóm þar sem kennslan getur birst víða. Hún birtist í einhverju af því sem við Guðbjörg segjum, hún birtist í rannsóknarniðurstöðum, hún birtist í lærdómssamfélaginu sem hver hópur er og hún birtist í náttúrunni. Mikilvægasta kennslan og mikilvægasti kennarinn er hinsvegar þú sjálf. Kennarinn hið innra. Öll svörin búa innra með þér. Við erum bara að skapa umgjörð fyrir þig til að staldra við, svo þú getur heyrt betur í þinni innri visku,“ segir hún. Mikilvægt að tapa ekki jarðtengingunni.

„Að tilheyra er hluti af grunnþörfum okkar. Náttúran er eitt og tengsl okkar við fólk er annað sem  er okkur lífsnauðsynlegt. Einsemd er því miður víða orðin heilsuvá í vestrænum heimi. Við erum að sjá  fólk sem er með minna félagslegt þol eftir kórónuveirufaraldurinn. Jafnvel fólk sem var mjög félagslega virkt áður. Á námskeiðum og fyrirlestrum hjá okkur höfum við verið  að fjalla um mikilvægi tengsla. Mörg okkar hafa verið og erum að takast á við þessa breytingu á félagslegu þoli sem eru eðlileg viðbrögð í óeðlilegum aðstæðum. Við sjáum til að mynda að margir eiga erfitt með að mæta aftur á vinnustaði eftir að hafa verið starfandi heima. Í því samhengi skiptir máli fyrir vinnustaði að  hlúa að heilsueflandi vinnuumhverfi og skapa nærandi, fjölbreytt rými sem styðja við mismunandi verkefni, vellíðan, endurheimt og starfsorku,“ segir hún.

Þurfum við einnig að passa hvað við borðum?

„Næring, fréttir og samfélagsmiðlar eru áhrifavaldar í daglegu lífi. Fjölbreytileiki í næringu eykst með hverjum degi og tæknin er að hafa stórkostleg áhrif á framfarir og lífsgæði. En þetta er að gerast mjög hratt sem getur verið ruglingslegt og við mannfólkið erum að læra að lifa með þessumafgerandi breytingum og erum að læra að finna jafnvægið. Við höfum trú á að við eigum eftir að ná betri tökum á þessu. En þegar kynslóðir ganga í gegnum svona miklar breytingar á jafn stuttum tíma, við þurfum ekki að horfa lengur en 100 ár aftur í tímann, þá er mikilvægt að tapa ekki tengslunum við náttúruna, tapa ekki jarðtengingunni.“

Viðtalið birtist í Morgunblaðinu 19. ágúst 2022.

Facebook

Aðrar sögur

Jól í jóla-óróa

Jólablað Hafnarfjarðar: Í annríki dagsins og sérstaklega á aðventunni er öllum mikilvægt að kunna leiðir

Ó­stöðvandi náttúru­börn

Viðtal Bjarkar Eiðsdóttur birtist í Fréttablaðinu 21. febrúar 2020, sjá hér: Ó­stöðvandi náttúru­börn (frettabladid.is). Ljósmyndari: Sigtryggur