Enginn fer í gegnum lífið „í stöðugu logni undir heiðskírum himni“

Kjarninn, 6. mars 2021. Blaðamaður Sunna Ósk Logadóttir: Íslensk náttúra hefur jákvæð áhrif á streitu þeirra sem í henni dvelja og hefur það nú verið staðfest með rannsókn. „Hlaðborð af náttúruöflum“ minnir okkur á að það er aldrei fullkomið jafnvægi í lífinu. Ekkert blómstrar allt árið en „ef þú ert alltaf með vindinn í fangið verður þú örmagna“. Kjarninn ræddi við eigendur Sögu Story House sem sérhæfir sig í að leiðbeina fólki að hægja á, staldra við og njóta.

Sjá einnig hér: Enginn fer í gegnum lífið „í stöðugu logni undir heiðskírum himni“ (kjarninn.is)

Það að dvelja úti í náttúrunni hefur jákvæð áhrif á streitu og getur einnig haft almennt jákvæð áhrif á hegðun og líðan. Að fólk upplifi ákveðna ró, aukna einbeitingu og seiglu og að það sé auðveldara að takast á við lífið. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar í meistaraverkefni Berglindar Magnúsdóttur í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands. Rannsóknin varð gerð meðal þátttakenda á námskeiði sem nefnist Staldra við – Heilandi áhrif náttúru á streitu á vegum Sögu Story House en stór hluti þess gengur út á að ganga um í náttúrunni undir faglegri leiðsögn, ígrunda í þögn og örva skilningarvitin í gegnum frumkraftana.

Þessi niðurstaða kom þeim Ingibjörgu Valgeirsdóttur og Guðbjörgu Björnsdóttur, eigendum Sögu og höfundum námskeiðsins, ekki á óvart enda hafa þær nýtt náttúruna í störfum sínum í mörg ár. Þær fagna því hins vegar að rannsóknin hafi verið gerð og staðfesti þar með þeirra reynslu. Því þrátt fyrir að fjölmargar erlendar rannsóknar séu til um áhrif náttúru á streitu er rannsókn Berglindar líklega sú fyrsta sem gerð er hérlendis.

„Nafnið Saga er tilkomið vegna þess að við höfum báðar verið að vinna alla tíð með lífssögur fólks,“ segir Ingibjörg, um tilurð fyrirtækisins þar nú hafa verið haldin námskeið í að verða tvö ár. „Okkur langaði til þess að skapa vettvang, skapa okkar sögu – búa til valdeflandi stað fyrir fólk þar sem það gæti spurt sig: Hvernig langar mig að skrifa mína sögu?“

Ingibjörg og Guðbjörg kynntust er þær unnu saman við öldrunarþjónustu. Í því starfi leiddu þær uppbyggingu á nýju hjúkrunarheimili í Garðabæ og dagþjálfun auk starfsemi í heimaþjónustu og félagsstarfi aldraðra.

Ingibjörg er uppeldis- og menntunarfræðingur og hefur auk þess lokið MBA-námi. Þá er hún einnig með jógakennararéttindi. Lengi vel vann hún með ungu fólki sem var að takast á við krefjandi verkefni í lífinu. „Eitt af því sem ég gerði var að ganga Hornstrandir með ungmennum á vegum félagsþjónustunnar og barnaverndar. Að vinna með fólki úti í náttúrunni hefur lengi verið mikil ástríða hjá mér. Og ég hef oft orðið vitni að göldrunum sem það getur haft í för með sér.“

Ástríða fyrir náttúrunni og trú á græðandi mátt hennar var einmitt eitt af því sem tengdi þær Ingibjörgu og Guðbjörgu. Sú síðarnefnda er iðjuþjálfi og jóga nidra kennari og hefur bæði starfað við endurhæfingu og ráðgjöf innan heilbrigðisgeirans í Danmörku og hér á landi. Í störfum sínum á barna- og unglingageðdeild vann hún með skjólstæðingum úti í náttúrunni, meðal annars til að styrkja sjálfsvitund þeirra og félagsfærni. Að sögn Guðbjargar var það henni mikill skóli og hún sagðist hafa fundið vel hversu mikilvægt og árangursríkt væri að styðja við fólk og styrkja í náttúrulegu umhverfi. 

,,Náttúran hefur áhrif á skynjun okkar. Hrynjandin, litirnir. Áferðin. Alls konar öfl sem togast á“.

Þær segja að í heilbrigðisgeiranum, „þar sem fólk er að vinna með fólki,“ líkt og Ingibjörg orðar það, hvort sem litið er til öldrunarþjónustu eða þjónustu við börn og ungmenni, geti skapast mikil streita. Þær hafi því farið að spyrja sig spurninga á borð við: Hvernig getum við hannað umhverfi okkar til að styðja við vellíðan fólks? Hvernig getum við hlúð að starfsfólki og skjólstæðingum og dregið úr álagi og streitu?

Fyrsta námskeiðið sem þær settu á laggirnar, sem átti aðeins að vera sumarnámskeið, var hugsað fyrir fólk sem væri að glíma við alvarlega streitu en einnig fólk sem þekkti álag og streitu og vildi afla sér verkfæra í forvarnarskyni. „En eftirspurnin var það mikil að námskeiðið er í boði allan ársins hring,“ segir Ingibjörg.

Námskeiðin sem haldin eru hjá Sögu eru orðin fleiri og starfsemin hefur einnig verið aðlöguð að ólíkum hópum, svo sem fyrirtækjum. „Þetta er gömul viska en ný vísindi,“ segir Ingibjörg um hugmyndafræðina. „Við höfum aflað okkur það mikillar þekkingar og reynslu í gegnum tíðina að við vorum alltaf sannfærðar um að náttúran væri heilandi og nærandi vettvangur. Og nú hefur það verið staðfest í þessari rannsókn.“

Í hverjum tíma námskeiðsins er unnið með ólík þemu og hvernig fólk getur fundið leiðir og aflað sér verkfæra til að auka lífsgæði og stuðla að jafnvægi í daglegu lífi. Eftir fræðslu er farið í göngur og hverjum tíma lýkur svo á djúpslökun.

Markmið námskeiðsins er að hægja á, að virkja innsæið. Að komast út úr þeim doða og óróa sem streita getur valdið. Leiðsögnin birtist í ólíkum og mörgum myndum m.a. „klárlega úti í náttúrunni í alls konar myndlíkingum – og í því að upplifa hluti á borð við hverfulleikann og stöðugar breytingar sem þar eiga sér stað “ segir Ingibjörg. „En það mikilvægasta sem við erum að vinna með er að þátttakendur heyri betur í þeirra innri rödd.“

Guðbjörg segir að allir þekki þá lífsfyllingu sem felst í því að dvelja úti í náttúrunni en í dagsins önn, í miklu álagi, streitu og hraða, getur fólk aftengst þessari gömlu visku. Gleymt þörfum sínum – því sem nærir og græðir. „Þá verður náttúran ekki eins mikill hluti af lífinu okkar. Það er stundum sagt að líkaminn heili sig sjálfur en þegar það heyrist svona hátt í samfélaginu þurfum við að gæta þess að skapa rétta umhverfið til að hann geti unnið vinnuna sína.“

Flókið að vera manneskja

Kaflarnir í lífssögunni okkar eru ólíkir. Stundum eru álagskaflar, jafnvel erfiðir. „Þannig er lífið og á þeim köflum verðum við að sýna okkur sjálfum mildi, ekki dæma okkur harkalega,“ heldur Guðbjörg áfram. „Það er stundum flókið að vera manneskja. Og það er aldrei fullkomið jafnvægi. Ekki frekar en í veðrinu. Það er ekki mögulegt að ganga í gegnum lífið í stöðugu logni undir heiðskírum himni.“

Ingibjörg grípur til annarrar myndlíkingar úr náttúrunni: „Okkur langar ekki heldur að vera stödd á stöðugri flatneskju. Það er ótrúlega hressandi að hafa fjölbreytt landslag – það er það sem gerir lífið svo ótrúlega áhugavert.“

Veður styður að þeirra sögn vel við núvitund. „Að þurfa að spá í næstu skref og hvar þú stígur í skaflinn,“ segir Ingibjörg og Guðbjörg heldur áfram: „Að finna kulda og verða kalt. Í hávaðaroki. Líkaminn okkar og hugurinn þekkir það að þurfa að berjast í gegnum veður og vind.“

Og það er ekkert mál og bara skemmtilegt að glíma við áskoranir. „En ef þú ert alltaf með vindinn i fangið, segir Ingibjörg, „alltaf að ganga á svelli, þá verður þú örmagna.“

Streita í hóflegu magni er hins vegar jákvæð og kraftmikil. „Það er ástæða fyrir henni,“ segir Guðbjörg. „Hún gefur okkur einbeitingu og orku. En þegar við gefum okkur aldrei tíma til að „setjast við eldinn“ eftir erfiðan dag, fá endurheimtina, þá verður hún smám saman óheilbrigð og neikvæð. Við gerum þá ríku kröfu til okkar sjálfra að við eigum að blómstra allt árið. Það er ríkt í okkur, að vera besta útgáfan af sjálfum okkur allan ársins hring. En náttúran er ekki í blóma allt árið.“

Á námskeiðum Sögu er farið í göngur þar sem þátttakendur verða vitni að ólíkum náttúruöflum og ólíku landslagi. Gengið er með hafinu, stöðuvötnum, í skógi, um hraun og meðfram ám og lækjum. Og gengið er að mestu í þögn. „Þannig styðjum við markmið námskeiðsins, að hægja á,“ segir Ingibjörg. Hugurinn sé alltaf á fullu og oft á „hinni frægu sjálfstýringu“. Fyrir það erum við þakklát, hugurinn er öflugur að vinna sína vinnu. „En hann getur líka tekið athyglina frá skynjun okkar – sem er tækið sem við höfum til að ná í næringuna okkar í augnablikinu og njóta hennar.“

Þögnin getur verið ögrandi fyrir fólk sem er undir miklu álagi og streitt. Það geta rólegar göngur um náttúruna líka verið. „Sumir verða jafnvel pirraðir fyrst í stað. Það kemur upp einhver óþreyja. Við erum svo vön því að það sé alltaf svo mikið að gera að það getur verið áskorun að hægja á,“ segir Ingibjörg.

Í mikilli streitu er fólk jafnvel að reyna að halda mörgum boltum á lofti. Það getur verið mikil áskorun að sleppa takinu á einhverjum þeirra tímabundið. Fólk getur upplifað tap og skömm. Og jafnvel sorg.

Við gerum þá ríku kröfu til okkar sjálfra að við eigum að blómstra allt árið. Það er ríkt í okkur, að vera besta útgáfan af sjálfum okkur allan ársins hring. En náttúran er ekki í blóma allt árið.

En svo gerist eitthvað innra með fólki. Það fer að njóta þess betur að hægja á, staldra við. Finnast það vera hluti af náttúrunni og síbreytilegum takti hennar.

En hvað er það nákvæmlega í náttúrunni sem hefur þessi græðandi og nærandi áhrif? Vitum við það yfir höfuð?

„Það eru margar kenningar um það,“ svarar Guðbjörg. Eitt er hreyfingin í hreina loftinu sem hefur góð áhrif á líkamann og annað er hvaða áhrif hún hefur á skynjun okkar. Hrynjandin, litirnir. Áferðin. Alls konar öfl sem togast á. „Undir streitu og álagi getur sjóndeildarhringurinn þrengst. Við höfum tilhneigingu til að fá rörsýn. Ef við hægjum á getur hann víkkað aftur. Við sjáum fleiri valmöguleika, fleiri leiðir. Það sem við sjáum, heyrum og finnum almennt þegar við eru úti í náttúrunni getur haft styðjandi áhrif á það. Skýrt huga okkar og virkjað sköpunargáfuna.“

Vatn gárast í vindi og roki. Það getur jafnvel orðið gruggugt. „Þannig getur því líka verið farið með líðan okkar,“ segir Ingibjörg. „Þegar hugurinn og kerfið okkar róast þá verður það jafnvel lygnt. Þá sérðu í botninn – það verður allt skýrara.“

Streita getur valdið mjög alvarlegum áhrifum á líkama og sál. Hún getur virst óyfirstíganleg og haft áhrif á alla þætti lífs okkar. „Enginn vill lenda á þeim stað,“ segir Guðbjörg og fagnar þeirri vitundarvakningu sem orðið hefur í samfélaginu sem hefur leitt til þess að margir sækjast eftir verkfærum og leiðum til að takast á við streitu áður en hún er orðin hamlandi. Í lífsins ólgusjó þurfum við að geta brugðist hratt við, reddað málum á stuttum tíma og hugsað um margt í einu. En að sama skapi er þá mikilvægt að hvílast inn á milli. Staldra við. Hægja á.

Ingibjörg segir það ríkt í Íslendingum og í raun arfleifð frá fornu fari að vinna mikið til að lifa af. „En það er þessi metnaðarfulli hugur sem getur svo keyrt okkur í þrot,“ segir Ingibjörg. „Hann getur farið með okkur út í alvarlega streitu og hann ætlar líka að koma okkur í gegnum endurheimt mjög hratt. En tíminn er hluti af náttúruöflunum sem við getum ekki tekið út úr jöfnunni. Allt á sinn tíma. Endurheimtin líka.“

Þegar fólk fer að skoða hvaða verkfæri og leiðir henti því til að komast út úr vanlíðan og streitu er það lagt af stað í ferðalag. „Og hversu langan tíma ferðalagið tekur er ekki fyrirfram ákveðið,“ segir Guðbjörg. Það getur verið stutt en það getur líka orðið langt.

Það að hægja á sér eflir sjálfsþekkingu, sjálfstraust og vitundina alla. Minnir okkur á og kennir okkur að staldra við í hversdagslífinu, velta fyrir okkur á hvaða leið við erum – hvort við séum á þeirri leið sem við raunverulega viljum. „Leiðarstef Sögu er að efla tengsl einstaklinga við sjálfa sig, samferðafólkið og náttúruna,“ segir Ingibjörg. „Það er okkur náttúrulegt að vera í náttúrunni. Við erum hluti af þessari heild. Þannig að með því að dvelja í henni og tengjast henni þá eflir þú tengsl við sjálfan þig í leiðinni.“

Það er áhugavert að vera á „réttri blaðsíðu í þinni lífssögu,“ bætir Guðbjörg við. Við séum oft upptekin af gærdeginum og hvað morgundagurinn ber í skauti sér. „Og svo mættum við hugsa um það hvort við séum sjálf að skrifa okkar lífssögu eða hvort að einhverjir aðrir séu að gera það. En þetta er þín saga.“

Það er að mati Ingibjargar og Guðbjargar engin tilviljun að margir sóttu í gönguferðir og aðra útivist í faraldrinum. Blanda af hvoru tveggja, væri til dæmis góð til framtíðar.

 Guðbjörg segir að óvissuástand sem faraldur kórónuveirunnar hefur skapað, þar sem sumir hafa jafnvel einangrast, taki á. Sérstaklega ef það vari lengi. „Við höfum takmarkað þol gagnvart óvissu. Eftir því sem tíminn líður kemur þreytan sem getur leitt til streitu. Skynjun okkar er svo ólík og þolmörkin okkar gagnvart óvissu líka.“

„Ég held að faraldurinn hafi hreyft við okkur,“ segir Ingibjörg. „Við höfum þurft að finna margar breytingar á eigin skinni. Við höfum til dæmis fundið það á eigin skinni hversu mikilvæg nándin er. Við höfum saknað hennar. Tækifærið sem við höfum núna, bæði sem einstaklingar og samfélag, er að ígrunda þessa reynslu og leyfa okkur að skapa út frá henni – og velja hvaða leið við viljum fara áfram. Og þannig er allt lífið. Þetta val sem við höfum. Valið felst í því að við getum staldrað við, ígrundað reynsluna okkar áður en lengra er haldið.“

Faraldurinn gæti veitt okkur tækifæri til að staldra við, heila jörðina og okkur sjálf, bendir hún á. Við sem búum á Íslandi erum svo lánsöm að náttúran er bakgarðurinn okkar. „Þessi kraftmikla náttúra, víðáttan, fjöllin, sjórinn og allt hitt. Hlaðborð af náttúruöflum.“

Facebook

Aðrar sögur

Jól í jóla-óróa

Jólablað Hafnarfjarðar: Í annríki dagsins og sérstaklega á aðventunni er öllum mikilvægt að kunna leiðir

Ó­stöðvandi náttúru­börn

Viðtal Bjarkar Eiðsdóttur birtist í Fréttablaðinu 21. febrúar 2020, sjá hér: Ó­stöðvandi náttúru­börn (frettabladid.is). Ljósmyndari: Sigtryggur