Okkar kæra Saga – Story House er farvegur fyrir hugmyndir, sköpunarorku og samstarf. Lífsgæðafyrirtæki, stofnað 2019, með áherslu á fólk og sögur, fjölbreytta fræðslu, ráðgjöf, heilsueflandi ferðalög og lífsgæðavörur. Þjónustan hentar fyrirtækjum og einstaklingum á öllum aldri.

Saga – Story House sameinar reynslu okkar, þekkingu, hugmyndafræði og ástríður og gefur okkur tækifæri til að skapa nærandi hluti með góðu fólki á hverjum degi.

Menntunin

Við höfum lokið námi í iðjuþjálfun, uppeldis- og menntunarfræði/fjölmiðlafræði, MBA (Master of Business Administration), yoga nidra- og yogakennarafræðum.

Stjórnunarreynslan

Samanlagt búum við að tæplega tuttugu ára víðtækri stjórnunarreynslu sem nýtist okkur vel í þjónustu Sögu – Story House. Við höfum m.a. leitt stjórnun sveitarfélags, hafnarmannvirkja, hjúkrunarheimilis, dagþjálfunar, heimaþjónustu, félagsstarfs fyrir bæði aldraða og ungmenni og unglingaathvarfs.

Fræðslan

Í gegnum tíðina höfum við starfað sjálfstætt við miðlun þekkingar og þjálfun fjölda starfsmanna og stjórnenda, komið að stundakennslu í Háskóla Íslands, veitt ráðgjöf og verkefnastýrt ólíkum verkefnum. Og þyrstar í fróðleik höfum við sótt okkur fræðslu og innblástur til annarra. Við höfum setið fjölda ráðstefna og námskeiða hér heima og erlendis á okkar sviði en einnig á ólíkum vettvangi.

Við trúum því að þverfagleg þekking og samtal fólks með ólíkan bakgrunn sé kraumandi jarðvegur fyrir nýsköpun og þróun.

Fólkið

Lánsamar búum við yfir áralangri reynslu af því að starfa með breiðum hópi fólks með ólíkar sögur og ólíkar þarfir.  Undanfarin ár höfum við starfað með fjölmennum og fjölbreyttum hópi eldri borgara, þar á meðal fólki sem er að takast á við sorg og færnitap af ýmsum toga sem hefur áhrif á lífsgæði þeirra á efri árum. Áður höfum við langa reynslu af einstaklings- og hópmeðferð fyrir börn og unglinga með geð- og þroskaraskanir. Við höfum starfað að ólíkum stuðningsúrræðum fyrir ungt fólk sem er að takast á við krefjandi verkefni í lífi sínu, svo sem erfiðar uppeldisaðstæður, fíknisjúkdóma og einelti auk vinnu með ungum atvinnuleitendum og innflytjendum svo eitthvað sé nefnt.

Allt þetta fólk og allar þessar sögur hafa haft djúpstæð áhrif á hvaða konur við erum í dag.

Heimurinn

Heimurinn og alþjóðlegt umhverfi eru okkur endalaus innblástur. Við höfum notið þess að ganga spöl á menntaveginum í Bandaríkjunum, Danmörku og Kína auk Íslands. Við höfum reynslu af því að starfa á erlendum vettvangi og höfum verið í nánu samstarfi við fjölda fólks frá ólíkum löndum í evrópskum samstarfsverkefnum. Þá höfum við setið í stjórnum evrópskra samtaka, meðal annars samtökum ættleiðingarfélaga í Evrópu. Þessi reynsla hefur verið bæði áhrifarík og umbreytandi í okkar lífi.

Náttúran

Við erum náttúrubörn. Náttúran hefur nært okkar innsta kjarna frá því að við vorum litlar stelpur. Þúfur og lækir, fjaran og fjallið, eyjan, skógurinn, vatnið og veðrið hafa mótað alla okkar vitund. Náttúran varð seinna vettvangur fyrir störf okkar með ungu fólki í Hálendishópnum á Hornströndum og í ævintýrameðferðum á barna- og unglingageðdeild.

Kraftur náttúrunnar og heilandi orka hennar hafa sterk áhrif á hugmyndafræði Sögu – Story House, þjónustu okkar, verkefni og vörur.

Bernskuárin

Og af því að bernskuárin eru það æviskeið sem fylgir okkur alla leið þá má geta þess að táningsárin á pústverkstæðinu hjá pabba og á traktornum í Trékyllisvík gera það að verkum að við elskum að keyra út um allar trissur og veitum þjónustu út um allt land.

Kaffið

Hjá okkur er heitt á könnunni. Það myndi gleðja okkur að drekka með þér kaffi. Skrifstofan okkar er á aðalhæðinni á Lífsgæðasetrinu St.Jó í Hafnarfirði. Við hvetjum ykkur einnig til að hafa samband með tölvupósti eða hringja, sjá upplýsingar hér að neðan.

Hlýjar kveðjur! 
Ingibjörg Valgeirsdóttir & Guðbjörg Björnsdóttir

ingibjorg@sagastoryhouse.is | gudbjorg@sagastoryhouse.is