Saga – Story House er eitt fjölda fyrirtækja sem er að hefja starfsemi í nýju Lífsgæðasetri St. Jó. Lífsgæðasetur er staður þar sem samankomin eru fyrirtæki með ýmiskonar starfsemi sem eiga það öll sameiginlegt að auka lífsgæði fólks með einum eða öðrum hætti.  Heilsa, samfélag og sköpun eru leiðarljós Lífsgæðasetursins sem rekið er af Hafnarfjarðarbæ.

Í byggingu og sögu St. Jósefsspítali felast ríkuleg menningarleg verðmæti fyrir bæði Hafnfirðinga og íslenskt samfélag. Guðjón Samúelsson húsameistari ríkisins teiknaði húsið sem var vígt þann 5. september 1926. Guðjón teiknaði fjölda þekktra bygginga á Íslandi, m.a. Landspítalann, Hallgrímskirkju, Héraðsskólann á Laugarvatni og aðalbyggingu Háskóla Íslands.
St. Jósefssystur stóðu fyrir byggingu St. Jósefssspítala á sínum tíma og leiddu starfsemi hans allt til ársins 1987.


Þá urðu kaflaskipti í sögu hans og ríki og sveitarfélag tóku við rekstrinum en spítalanum var lokað árið 2011 og hefur hann staðið auður síðan. Hafnarfjarðarbær keypti spítalann árið 2017 og hefur staðið fyrir metnaðarfullum endurbótum á húsnæðinu þar sem virðing fyrir bæði sögu og arkitektúr hússins er höfð að leiðarljósi.

Við erum þakklátar fyrir að Saga – Story House fái að stíga sín fyrstu skref í þessu fallega, sögulega húsi og munum leggja okkar af mörkum við að taka þátt í að veita Hafnfirðingum og öðrum landsmönnum góða þjónustu og skapa nærandi samfélag. Framhaldssaga St. Jósefsspítala er að hefjast.