Paellu-námskeið hjá Sössu: Veisla fyrir skynfærin

Við erum mættar heim til Sössu vinkonu, Sigríðar Ástu Eyþórsdóttur. Þetta er fyrsta Paellu-námskeiðið hennar. Hún ætlar að sameina það sem hún elskar í einni ljúfri og lærdómsríkri kvöldstund: Fólk og mat, ást og samveru. Og miðlun menningar og þekkingar. Sassa getur kennt okkur hinum svo margt. Paellu-gerð er eitt af því.

Fegurðin er í essinu sínu, hún breiðir úr sér um allt hús og snertir á öllu sem á vegi hennar verður. Heimili Sössu er einstakt sköpunarverk. Hvert sem litið er blasa við ævintýri. Munir allstaðar að úr heiminum vekja undrun og eftirtekt, óvænt bros og vellíðan. Gestirnir taka að streyma inn. Og gestrisnin lætur ekki á sér standa.

Hver og einn upplifir sig einstakan þar sem Sassa breiðir út faðminn og fagnar á sinn hiklausa, ástríka hátt. Hún hefur yfirleitt þekkt fólk mun lengur en frá því að hún hitti það fyrst. Það er bara þannig.

Það sést ekki í borðið fyrir fallegu hráefni sem allt á eftir að finna sitt mikilvæga, sérstaka hlutverk í Paellum kvöldsins. Sassa er sérfræðingur í að finna það besta í bæði hráefni og fólki. Þessi spánski réttur er uppruninn í Valenciu, borginni þar sem Sassa brosti sínu breiðasta í þau ár sem hún bjó þar. Hana er lengi búið að langa til að kenna Íslendingum að elda þennan sögulega rétt sem Spánverjar kunna svo vel að elda og meta. Ástæðan er ekki bara bragðið.

Hér er gamalli eldunaraðferð fylgt af virðingu. Svuntuklæddar konur feta í fótspor kvenna og ekki síður karla, sem eldað hafa Paellur í áraraðir yfir logandi eldi. Frumkrafti jarðar. Á Spáni er hefð fyrir því að karlar eldi þennan sögulega rétt. Eldhúsið hennar Sössu er nú sem endranær stútfullt af líflegum samræðum og smitandi hlátri í takt við leikandi létta spænska tónlistina. Hnífarnir skella kunnuglega á skurðarbrettunum þegar þeir komast ákveðnir sína leið í gegnum ferskt, brakandi grænmetið. Laukurinn kraumar notalega á pönnunni.

Sassa leiðir okkur fumlaust í gegnum eldamennskuna, hún þekkir þessa vegferð eins og lófann á sér. Hún bætir sínu opna hjartalagi og sögulegu þekkingu við uppskriftina. Breiða brosið hennar setur punktinn yfir i-ið. Það er auðvelt að komast við. Matarilmurinn tekur stigvaxandi þátt í stemningunni og smám saman tryllast skynfærin. Þetta er þeirra hátíð! 

Á  gjöfulan hátt er Sassa að færa okkur Íslendingum innsýn og aðgengi að djúpri menningu Valenciubúa og annarra Spánverja þar sem samvera er, og hefur verið, einn veigamesti þátturinn í daglegu lífi. Sassa er iðjuþjálfi að mennt og hefur í áratugi starfað með ungu fólki. Hún er konan sem þekkir manna best hvað grunnþarfir okkar, matur og tengsl, hafa mikil áhrif á líðan okkar og lífsgæði.

Paellu-námskeið hjá Sössu og Paellu-eldamennska almennt uppfylla á einstakan og eftirminnilegan hátt þessar mikilvægu grunnþarfir okkar. Nærandi matur í bland við nærandi samveru er einfaldlega fullkomin uppskrift til daglegra nota.

Takk fyrir okkur!