Hér er gott að hanga

Það er eitthvað við það að vera á ullarsokkunum í almenningsrými. Skilja skóna eftir  í anddyrinu og ganga hljóðlega upp glansandi línolíudúkaðar tröppurnar. Tilfinningin breytir rýminu. Strax í þessum fyrstu skrefum finnum við fyrir rónni sem á eftir að umvefja okkur eins og mjúkt teppi næstu dagana.

Virðingin fyrir sögu og arkitektúr hússins smýgur hratt í gegnum hlýja sokkana og inn í vitund okkar. Húsameistari ríkisins lítur upp úr teikningunum og brosir góðlátlega til okkar þar sem hann situr í þægilegum hægindastól við háan gluggann. Á útskornu fráleggsborði rýkur úr kaffibolla við hliðina á skissubunka. Hann er að ljúka við teikningarnar af Hótel Borg, næsta meistaraverki sínu. Hversu töff? Það er auðvelt að ímynda sér þetta. Nærvera hans er sterk.

Lágstemmd tónlistin og tungumál heimsins tengja okkur aftur við raunveruleikann. Fólk frá ólíkum heimsálfum virðist njóta lífsins. Hér tala allir í hálfum hljóðum, borða hægt og brosa til gestanna á næstu borðum. Allir á ullarsokkunum. Svona á þetta eftir að vera þessa daga sem við dveljum.

Það er eins og við höfum gengið inn í kafla í Slow Living hugmyndafræðinni. Okkur leiðist það ekki.

Við hugsum um allt fólkið sem er að takast á við hraða og áreiti hversdagsins, jafnvel streitu og kulnun. Þetta er kjörinn staður til hvíldar. Hér eru allir í rónni. Íslenskur febrúar tekur fullan þátt í hæglátri ullarsokkastemningunni. Kyrrðin nær langt út fyrir fallega glugga Héraðsskólans og Laugarvatn lýsist upp í tunglskininu. Hér er gott að hanga. Og hanna fyrirtæki. Fyrirtæki sem við getum ekki beðið eftir að opna með vorinu í öðru húsi húsameistarans, St. Jósefsspítala í Hafnarfirði.

Guðjón Samúelsson arkitekt var fæddur á þessum degi, þann 16. apríl árið 1887 og lést 25. apríl 1950. Hann var húsameistari ríkisins frá 1920 til dauðadags og teiknaði margar af þekktustu byggingum landsins.