Endalokin nálgast


Ég veit ekki hvort það er af því að ég er þreytt.

Eða af því að ég er svöng. Eða af því að það er allt í einu mjög hlýtt í eldhúsinu. Kannski er ég bara að leita mér að afsökun fyrir upplifun minni. Sannleikurinn er sá að ég get ekki tekið augun af henni. Samt sé ég hana ekki nema í móðu.

Við höfum lokið dagsgöngu í bæði blíðu og byl frá Lundi í Lundareykjadal yfir að Fitjum í Skorradal. Þetta er partur af gamalli pílagrímaleið frá Borgarfirði í Skálholt og gangan hluti af undirbúningi

okkar fyrir 300 km göngu á Jakobsveginum með ferðaskrifstofunni Mundo. Ég sit þarna á bekknum í eldhúsinu á Fitjum og finn hvað mér hitnar jafnt og þétt í framan.

Ég finn þessa kunnuglegu eldhúsró. Hlusta á notalegt skvaldrið í fólkinu allt í kringum borðið og finn strauminn sem fer um efri hluta líkamans þegar hún gerir vart við sig. Gráttilfinningin.

Ég finn fyrir sorg, sem breytist á rafmagnaðan hátt yfir í djúpstætt þakklæti og þaðan yfir í hamingjutilfinningu sem hríslast um mig. Og breytist svo aftur í sorg. Þessi þríþætta hringrás hamingjunnar hellist yfir mig ásamt blöndu af samviskubiti og sameiginlegri minningu minni með jafnöldrum mínum um land allt.

Ástin og umhyggjan sem felst í nýbökuðu skúffukökunni hefur fylgt kynslóð minni frá bernsku. Við höfum notið þess að ósérhlífnar konur hafa slett henni fumlaust í form árum saman. Ég sé mömmu ljóslifandi fyrir mér þar sem sleikjan dansar í höndum hennar þegar hún hreinsar allt deigið vel og vandlega úr hrærivélaskálinni. Hér er sko engu hent. Kremið hálfbráðnar ofan í volga kökuna og mjólkurglasið setur punktinn yfir i-ið. Birtingarform þessarar óeigingjörnu, alúðlegu athafnar íslenskra kvenna verður jafnvel enn augljósara þegar húsfreyjan á Fitjum biður okkur sannfærandi og ákveðin um að fá okkur endilega meira.

Ég reyni að kyngja kekkinum í hálsinum með kökunni því sannleikurinn blasir óþægilega augljóslega við mér. Við erum að nálgast endalok skúffukökunnar.

Kynslóðin mín elskar hana. En við ætlum ekki að halda áfram að baka hana. Við ætlum ekki einu sinni að halda áfram að borða hana. Og við ætlum helst ekki að halda áfram að gefa börnunum okkur hana. Nema kannski, eftilvill, mögulega, í mesta lagi – í afmælisveislum.